Karellen



Grænfáninn

Skólar á grænni grein er alþjóðlegt verkefni til að auka umhverfismennt og styrkja menntun til sjálfbærni í skólum. Skólar ganga í gegnum sjö skref í átt að aukinni umhverfisvitund og sjálfbærni. Þegar því marki er náð fá skólarnir að flagga Grænfánanum til tveggja ára og fæst sú viðurkenning endurnýjuð ef skólarnir halda áfram góðu starfi.

Grænfáninn er umhverfisviðurkenning sem nýtur virðingar víða í Evrópu sem tákn um árangursríka fræðslu og umhverfisstefnu í skólum. Skrefin sjö eru ákveðin verkefni sem efla vitund nemenda, kennara og annarra starfsmanna skólans um umhverfismál. Verkefnin eru bæði til kennslu í bekk og til að bæta daglegan rekstur skóla. Þau styrkja grunn að því að tekin sé ábyrg afstaða og innleiddar raunhæfar aðgerðir í umhverfismálum og sjálfbærni innan skólans. Jafnframt sýnir reynslan að skólar sem taka þátt í verkefninu geta sparað talsvert í rekstri.

Markmið verkefnisins er að:


Bæta umhverfi skólans, minnka úrgang og notkun á vatni og orku.

Efla samfélagskennd innan skólans.

Auka umhverfisvitund með menntun og verkefnum innan kennslustofu og utan.

Styrkja lýðræðisleg vinnubrögð við stjórnun skólans þegar teknar eru ákvarðanir sem varða nemendur.

Veita nemendum menntun og færni til að takast á við umhverfismál.

Efla alþjóðlega samkennd og tungumálakunnáttu.

Tengja skólann við samfélag sitt, fyrirtæki og almenning.

© 2016 - 2023 Karellen