Karellen
Tilurð verkefnisins og markmið
Haustið 2018 auglýsti Menntamálastofnun eftir þátttakendum í þróunarverkefnið Snemmtæk íhlutun með áherslu á málþroska og læsi í samvinnu við Ásthildi Bj. Snorradóttur talmeinafræðing. Halldóra Guðlaug Helgadóttir leikskólaráðgjafi Skólaþjónustu Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellsýslu ásamt Eddu G. Antonsdóttur þá verandi forstöðumanni ræddu við stjórnendur leikskólanna fimm og var ákveðið að sækja um þátttöku en leikskólarnir komust ekki að. Sama haust var leikskólaráðgjafi ásamt nokkrum starfsmönnum af leikskólum svæðisins á námskeiði hjá Ásthildi sem markaði upphaf samstarfs Skólaþjónustunnar og Ásthildar. Leikskólarnir fimm á þjónustusvæði Skólaþjónustunnar Leikskólinn Laugalandi, leikskólinn Heklukot, leikskólinn Örk, leikskólinn Mánaland og Heilsuleikskólinn Kærabæ, samþykktu þátttöku og stóð verkefnið yfir frá hausti 2019 til vors 2021. Ásthildur Bj. Snorradóttir var verkefnastjóri varðandi innleiðingu á þessu þróunarverkefni í náinni samvinnu við Halldóru Guðlaugu Helgadóttur.
Mikill vilji er innan leikskólanna til að auka þekkingu og færni alls starfsfólks í vinnu með málörvun og málþroska leikskólabarna. Vaxandi fjölmenning á svæðinu ýtir undir þörf fyrir meiri þekkingu á málþáttum tungumálsins, málörvunarefni, undirstöðum fyrir lestur og hvernig megi nýta þá þekkingu sem best til snemmtækrar íhlutunar í leikskólastarfi. Stjórnendur leikskólanna fimm ásamt sveitarstjórnum sveitarfélaganna fimm; Ásahrepps, Rangárþings ytra, Rangárþings Eystra, Mýrdalshrepps og Skaftárhrepps og stjórn Skólaþjónustunnar sýndu mikinn áhuga á að taka þátt í verkefninu. Markmið verkefnisins eru:
• Að öll börn í leikskólunum nái hámarksárangri hvað varðar mál, tal og boðskipti fyrir upphaf grunnskólagöngu.
• Að leikskólabörn fái íhlutun og kennslu við hæfi og að kennsla í grunnskólum byggi á niðurstöðum og áherslum í kennslu frá leikskólum.
• Að leikskólar taki leiðandi hlutverk í valdeflingu starfsfólks til að beita aðferðum snemmtækrar íhlutunar í daglegu starfi til að efla málfærni og læsi.
Afurð verkefnisins er handbók fyrir hvern leikskóla sem unnin var samkvæmt aðgerðaráætlun og handbókarramma verkefnisins þar sem sérstök áhersla var lögð á að virkja allt starfsfólk leikskólans til þátttöku og að hugmyndafræði og sérstaða hvers leikskóla kæmi skýrt fram. Í handbókunum kemur fram hvernig hver leikskóli flokkar og nýtir á markvissan hátt málörvunarefni í leik og starfi. Verkferlar og vinnulag var gert skýrara ásamt uppbygginu málörvunarstunda og mati á árangri. Einnig var leitast við að efla leiðtogahlutverk leikskólanna þegar kemur að snemmtækri íhlutun vegna málþroska og undirstöðuþátta fyrir læsi leikskólabarna.
Fjölbreytt fræðsla var veitt starfsfólki og vinnuhópum leikskólanna sem og foreldrum. Myndaður var tengiliðahópur innan hvers leikskóla til þess að halda utan um þróunarverkefnið. Jafnframt var leikskólunum veitt ráðgjöf við uppbyggingu á handbókunum, mikilvægum þáttum tengdum málþroska og læsi leikskólabarna og flokkun á námsefni. Starfsfólk leikskólans hefur lagt mikla vinnu í handbækurnar og má segja að samvinna, seigla, umhyggja og metnaður hafi orðið leiðarljós vinnuhópsins.
Skólaþjónusta Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýslu þakkar öllum sem lögðu hönd á plóginn til að handbækurnar yrðu sem bestar úr garði gerðar. Leikskólabörn munu njóta afraksturs vinnunnar nú og til framtíðar.

© 2016 - 2024 Karellen