Karellen


Starfsreglur foreldraráðs Heilsuleikskólans Kærabæjar

1. Foreldraráð Heilsuleikskólans Kærabæjar starfar samkvæmt lögum um leikskóla nr.90 frá 12. júní 2008.

2. Foreldraráð starfar með hagsmuni barnanna og foreldra þeirra að leiðarljósi. Hlutverk foreldraráðs er að gefa umsagnir til leikskóla og nefndar um skólanámskrá og aðrar áætlanir sem varða starfsemi leikskólans. Þá skal ráðið fylgjast með framkvæmd skólanámskrár og annarra áætlana innan leikskólans og kynningu þeirra fyrir foreldrum. Foreldraráð hefur umsagnarrétt um allar meiri háttar breytingar á leikskólastarfi og skal leikskólastjóri upplýsa foreldraráð um öll mikilvæg málefni sem áhrif hafa á starfsemi leikskólans.

3. Kjósa skal foreldraráð á foreldrafundi fyrir 1. október ár hvert og skal leikskólastjóri hafa frumkvæði að kosningunni.

4. Í foreldraráð skulu kosnir þrír foreldrar eða forráðamenn barna í leikskólanum og einn varafulltrúi. Hver fulltrúi er kosinn til eins árs.

5. Leikskólastjóra ber að starfa með foreldraráði og kallar það saman til fyrsta fundar.

6. Embætti ráðsins eru þrjú, formaður, ritari og meðstjórnandi. Þau sem sitja í foreldraráði skipta með sér verkum á fyrsta fundi ráðsins.

7. Formaður foreldraráðs situr sem fulltrúi foreldra á fræðslunefndarfundum.

8. Ráðið skal funda þrisvar á ári eða oftar, í október, febrúar og apríl.

9. Foreldraráðsfulltrúum er skylt að gæta trúnaðar varðandi upplýsingar um einstaklinga,nemendur, kennara eða aðra sem þeir verða áskynja um í starfi sínu.

10. Ráðið getur kallað aðra foreldra til fundar ef þess gerist þörf.

11. Fundargerðir ráðsins skulu birtast á vef leikskólans á svæði foreldra.

12. Starfsreglur þessar skulu endurskoðaðar í lok hvers skólaárs og ákveði ráðið að koma með tillögu að breytingum skulu þær kynntar fyrir foreldrafund í september og kosið um þær þar.

13. Starfsreglur þessar taka gildi 09/2012 og falla þá úr gildi starfsreglur frá 03/2009.

© 2016 - 2024 Karellen