Inngangur.

Hlutverk skólanámskrár Heilsuleikskólans Kærabæjar er að gera leikskólastarfið sýnilegra foreldrum, starfsfólki og öðrum þeim sem kunna að láta sig starfsemi leikskólans varða. Einnig að veita heildarsýn yfir leikskólastarfið og gera það markvissara og auðveldara öllum aðilum. Námskráin á að gefa starfsfólki skýrar upplýsingar um hvers er vænst af því og á að gera nýliðum auðveldara að komast inn í starfið. Þá á hún að auðvelda markvisst samstarf við foreldra og aðra samstarfsaðila. Skólanámskráin byggir á aðalnámskrá leikskóla sem gefin er út af Menntamálaráðaneytinu í maí 2011. Aðalnámskráin er stefnumótandi leiðavísir um uppeldisstörf í leikskólum og byggist á markmiðslýsingu laga um leikskóla nr. 90/2008. Samkvæmt lögum nr. 90/2008 bera sveitarfélög ábyrgð á starfsemi leikskóla. Sveitarfélög hafa forustu um að tryggja börnum leikskóladvöl og bera ábyrgð á heildarskipan skólahalds í leikskólum sveitarfélags, þróun einstakra leikskóla, húsnæði og búnaði leikskóla, sérúrræðum leikskóla, sérfræðiþjónustu, mati og eftirliti, öflun og miðlun upplýsinga og á framkvæmd leikskólastarfs í sveitarfélagi. Reglugerð um starfsemi leikskóla nr. 655/2009 tók gildi 3. júlí 2009. Í annarri grein laga um leikskóla nr. 87/2008 segir;

„Í leikskólum skal velferð og hagur barna hafður að leiðarljósi í öllu starfi. Veita skal börnum umönnun og menntun, búa þeim hollt og hvetjandi uppeldisumhverfi og örugg náms- og leikskilyrði. Stuðla skal að því að nám fari fram í leik og skapandi starfi þar sem börn njóta fjölbreyttra uppeldiskosta. Starfshættir leikskóla skulu mótast af umburðarlyndi og kærleika, jafnrétti, lýðræðislegu samstarfi, ábyrgð, umhyggju, sáttfýsi, virðingu fyrir manngildi og kristinni arfleifð íslenskrar menningar. Meginmarkmið uppeldis og kennslu í leikskóla skulu vera:

a. að fylgjast með og efla alhliða þroska barna í náinni samvinnu við foreldra,

b. að veita skipulega málörvun og stuðla að eðlilegri færni í íslensku,

c. að hlúa að börnum andlega, vitsmunalega og líkamlega í samræmi við þarfir hvers og eins svo að börnin fái notið bernsku sinnar,

d. að stuðla að víðsýni barna og efla siðferðisvitund þeirra,

e. að leggja grundvöll að því að börn verði sjálfstæðir, virkir og ábyrgir þátttakendur í lýðræðisþjóðfélagi sem er í örri og sífelldri þróun,

f. að rækta hæfileika barna til tjáningar og sköpunar í þeim tilgangi m.a. að styrkja sjálfsmynd þeirra, heilbrigðisvitund, öryggi og hæfni til mannlegra samskipta“.

____________________________

Kirkjubæjarklaustri í janúar 2012

Þórunn Júlíusdóttir

skólastjóri Heilsuleikskólans Kærabæjar1. kafli. Saga leikskólans

Heilsuleikskólinn Kæribær stendur við Skaftárvelli á Kirkjubæjarklaustri. Hann tók til starfa 1. október 1988 en þá var það húsnæði sem leikskólinn er nú starfræktur í formlega tekið í notkun. Fram að þeim tíma frá hausti 1971 var Dagheimili Kirkjubæjarhrepps starfrækt yfir vetrarmánuðina á hinum ýmsu stöðum á Kirkjubæjarklaustri og var mikil breyting þegar leikskólinn fékk eigið húsnæði og hóf að vera starfræktur allt árið um kring, þó með a.m.k. fjögurra til fimm vikna sumarlokun.

Leikskólastjórar Kærabæjar hafa verið:

Hrefna Sigurðardóttir 1988-1995

Guðný Óskarsdóttir 1995-1996

Þórunn Júlíusdóttir 1996-1999

Jóna Björg Vilbergsdóttir 1999-2000

Þórunn Júlíusdóttir 2000- 2007

Guðrún Sigurðardóttir árið 2007

Þórunn Júlíusdóttir frá 2008

Þann 4. júní 2008 var Grænfánanum flaggað í fyrsta sinn. Allt frá árdögum skólans hefur mikil áhersla verið lögð á umhverfismennt í allri starfsemi skólans. Kæribær er heilsuleikskóli og hefur starfað formlega eftir heilsustefnunni frá 19. október 2010.

2. kafli. Leikur og leikskólastarf

Einkunnarorð leikskólans eru “Okkar nám er leikur”

Kjarninn í uppeldisstarfi leikskólans er frjálsi leikurinn þar sem hann er talinn vera hið eðlilega tjáningarform barnsins. Leikurinn er leið barnsins að menntun og þroska. Hann verður að vera sjálfsprottinn frá náttúrulegri hvöt barnsins. Í leik eru börnin virk og skapandi. Á Kærabæ er barnið í brennidepli og gengið er út frá þroska þess og þörfum. Við viljum virkja barnið í þekkingarleit sinni og að það læri að beita rökhugsun, spyrja spurninga og leita svara. Við viljum að barnið læri að þekkja eigið sjálf, þróa með sér jákvæða sjálfsmynd og tilfinningu fyrir eigin getu. Að það læri að í samskiptum manna er nauðsynlegt að hafa tilteknar hegðunarreglur sem ber að virða. Einnig að barnið læri að bera virðingu fyrir sjálfu sér og samferðafólki sínu, umhverfinu, náttúrunni og öllum lifandi verum. Þá viljum við einnig að barnið læri undirstöðuatriði heilbrigðs lífs og lífsviðhorfa í samneyti við jafningja í leik og starfi og geti valið og hafnað út frá eigin forsendum. Hlutverkaleikurinn er af mörgum talinn þróaðastur allra leikja, hann þykir hafa mesta þýðingu fyrir alhliða þroska barnsins. Leikurinn reynir á allt í senn, samvinnu – sköpun – hreyfingu – tjáningu – málþroska og siðgæðisþroska. Í leiknum virkjar barnið ímyndunarafl sitt og vinnur úr mörgum þeim áreitum sem það verður fyrir í daglegu lífi. Barnið lærir að taka tillit til og setja sig í spor annarra og þroskar þar með samskiptahæfni sína. Leikurinn er líf barnsins og starf og er því sífellt í gangi. Segja má að bernskan sé leikur að námi til þekkingaröflunar, það að leika sér og læra að afla sér þekkingar. Í leikskólanum þurfa börnin á góðum leikskilyrðum að halda s.s. nægum samfelldum tíma, rými, viðeigandi leikbúnaði og öðrum efnivið til leikja. Til þess að barnið fái notið sín í leiknum skiptir afstaða fullorðins fólks miklu máli og mikilvægt er að það sýni börnunum og leik þeirra stuðning, virðingu og umhyggjusemi.

Hlutverk leikskólakennarans er að leiða börnin í þekkingarleit sinni og spyrja spurninga þannig að börnin tengi reynslu sína við nýja uppgötvun í stað þess að gefa tilbúnar lausnir.

Kenningar sem starf leikskólans byggir á.

Við höfum til hliðsjónar og stuðnings Framfarastefnu John Dewey´s (1859-1952) sem lagði áherslu á að nám fari fram með því að fást sjálfur við viðfangsefnið. Að ekki eigi að mata börnin á upplýsingum, heldur gefa þeim tækifæri til að uppgötva og leita lausna undir handleiðslu leikskólakennara.

Kenning Howard Gardner um fjölgreind er undirliggjandi í starfi leikskólans. Gardner skilgreinir greind sem hæfileikann til að skapa eitthvað eða leggja eitthvað af mörkum sem talið er verðmætt í því samfélagi og þeirri menningu sem einstaklingurinn tilheyrir. Kenning Gardners gengur út frá því að mannleg greind sé samsett úr átta mismunandi þáttum eða greindum sem eru; málgreind, rök- og stærðfræðigreind, rýmisgreind, líkams- og hreyfigreind, tónlistargreind, samskiptagreind, sjálfsþekkingargreind og umhverfisgreind.

Þá falla hugmyndir okkar vel að kenningum Daniel Goleman um tilfinningagreind en hann heldur því fram að fimm svið mannlegra tilfinninga skipti meginmáli: að þekkja eigin tilfinningar, að stjórna tilfinningum sínum, að virkja tilfinningar sínar, að gera sér grein fyrir tilfinningum annarra og færni í samskiptum.

Ævagamalt kínverskt máltæki segir;

Segðu mér

ég gleymi.

Sýndu mér

ég man

Leyfðu mér að fást við

ég skil.

Skóli á grænni grein, Grænfáninn

Kæribær stefnir að því að virðing fyrir umhverfinu verði sjálfsagður þáttur í öllu starfi leikskólans. Skaftárhreppur, rekstraraðili leikskólans, er þátttakandi í Staðardagskrá 21 sem miðar að sjálfbærri þróun og umhverfisvernd. Þann 4. júní 2008 fékk Kæribær Grænfánann í fyrsta sinn, fyrstur skóla í Skaftafellssýslum. Grænfáninn er alþjóðleg viðurkenning fyrir starf að umhverfismennt og menntun til sjálfbærar þróunar. Umhverfisnefnd fundar um málefni umhverfis leikskólans á fimm vikna fresti. Hana skipa elstu börn leikskólans, fulltrúi foreldra sem kosin er á foreldrafundi að hausti, skólastjóri leikskólans og fulltrúi starfsfólks. Annað hvert ár þurfa Grænfána skólar að vinna að sérstökum þemabundum verkefnum sem tengjast umhverfinu s.s. vatni, orku, rusli, átthögum, lýðheilsu og samgöngum. Í leikskólanum er unnið eftir námskrá Kærabæjar í náttúrufræði umhverfismennt. Þar eru áhersluatriðin að kynnast okkar nánasta umhverfi og endurvinnslu.

Art

ART ( Aggressoin Replacement Training) er vel afmörkuð og árangursrík aðferð til að draga úr erfiðri hegðun hjá börnum og ungu fólki t.d. þeim sem greinst hafa með ýmiskonar þroskaraskanir, ofvirkni og alvarlegar atferlistruflanir. En í raun hafa allir gott af því að læra ART og sums staðar í nágrannalöndum okkar er ART hluti af námsefni allra. ART er leið til að ná til barna svo snemma að ART verði með tímanum ekki síst fyrirbyggjandi úrræði.

Aðferðin skiptist í þrjá megin þætti:

Félagsfærni sem er atferlisþáttur þessa efnis, sjálfsstjórnun (reiðistjórnun) er þáttur sem tengist tilfinningum og þjálfun í siðrænni röksemdarfærslu er þáttur sem höfðar til vitsmuna.

Sérkennsla

Börn hafa mismunandi getu, reynslu og þroska. Þau hafa þörf fyrir samneyti við önnur börn, jafnt jafnaldra sína sem eldri og yngri börn. Leikskólinn á að taka tillit til þarfa hvers einstaks barns svo að það fái notið sín í hópi annarra barna á eigin forsendum (Aðalnámskrá leikskóla 15,1999).

Taka ber sérstakt tillit til barns sem á einhvern hátt er fatlað eða með tilfinninga og/eða félagslega erfiðleika. Það þarf að njóta sérstakrar aðstoðar til að vega upp á móti þeirri hömlun sem fötlunin setur því. Gæta þarf þess að barn einangrist ekki og aðlagist vel barnahópnum og njóti eðlilegra félagslegra tengsla. Styrkja ber sjálfsmynd barnsins. Barn hefur þörf fyrir að vinna sigur, það sem á við fötlun , hömlun eða veikindi að stríða jafnt sem heilbrigt barn. Leikskólinn á að hjálpa börnum frá öðrum menningarsvæðum til að vera virkir þátttakendur í hinu nýja samfélagi án þess að þau glati tengslum við eigin menningu, tungu og trú. Þau þurfa að öðlast sjálfsöryggi í hinu nýja umhverfi og tilfinningu fyrir því að þau séu velkomin þar. Þannig halda þau sjálfsvirðingu sinni og styrkja sjálfstraust sitt. Ýmis konar atburðir og erfiðleikar í lífi barns geta orðið því þungbærir og haft djúp áhrif á hegðun þess og líðan. Leikskólinn skal hjálpa barninu við að vinna bug á ótta sínum og öryggisleysi. (Aðalnámskrá leikskóla 16, 1999)

Heilsuleikskóli

Frá vormánuðum 2008 var unnið markvisst að því að ná markmiðum Heilsustefnunnar á árinu 2010 með því m.a. að aðlaga matarvenjur að markmiðum hennar og aukin áhersla var lögð á hreyfingu með viðmið Heilsubókarinnar að leiðarljósi.

Tyllidagar á Kærabæ.

  • Afmæli barnanna.
  • Afmæli leikskólans 1. október.
  • Dagur íslenskrar tungu.
  • Jólahefðir í starfi með börnunum, kveikt á jólatrénu við félagsheimilið, heimsókn í Kapelluna og á hjúkrunarheimilið, kaffihúsaferð á hótel Klaustur.
  • Þorrablót.
  • Bolludagur, sprengidagur, öskudagur.
  • Páskar.
  • Garðveisla fyrir sumarfrí og útskrift barna eða þegar þau hætta.

3. kafli. Heilsuleikskóli

Upphaf heilsustefnunnar

Unnur Stefánsdóttir leikskólastjóri í Heilsuleikskólanum Urðarhóli í Kópavogi hafði frumkvæði að mótun heilsustefnu fyrir leikskóla. Markmið stefnunnar er að auka gleði og vellíðan barnanna með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Hugmyndafræðin er sú að ef barn fær holla næringu og mikla hreyfingu, þá sprettur fram þörf til að skapa. Urðarhól sem áður hét Skólatröð var vígður sem fyrsti heilsuleikskólinn á Íslandi 1. september 1996. Síðar tóku fleiri leikskólar upp heilsustefnuna og í nóvember 2005 voru stofnuð Samtök Heilsuleikskóla. Fyrsti formaður samtakanna var Unnur Stefánsdóttir. Í júní 2010 voru 14 leikskólar í landinu viðurkenndir Heilsuleikskólar. Kennarar Urðarhóls sömdu og gáfu út Heilsubók barnsins og Guðlaug Sjöfn Jónsdóttir leikskólakennari hannaði merki heilsuleikskóla. Fáni með heilsumerkinu er sú viðurkenning sem leikskólarnir fá afhentan ásamt viðurkenningarskjali, þegar þeir hafa uppfyllt þau skilyrði sem heilsuleikskóla ber að gera. Merki heilsuleikskólans táknar Heildin samofin þar sem barnið er í miðjunni umvafið áhersluþáttum heilsustefnunnar og leikskólaumhverfinu, sem vinna saman að því að þroska barnið.

Viðmið heilsuleikskóla

Heilsuefling í skólum byrjaði 1994 sem samstarfsverkefni Heilbrigðisráðuneytisins og Landlæknisembættisins við skóla á öllum skólastigum. Evrópuverkefni heilsuskóla hófst 1999 og lauk 2002 og voru 4 skólar og Heilsugæslan í Kópavogi þátttakendur, þar á meðal heilsuleikskólinn Skólatröð. Afrakstur Evrópuverkefnisins var viðmið fyrir leik-, grunn- og framhaldsskóla þar sem fram koma markmið heilsueflingar í skólum og þau grundvallarviðmið sem heilsuskólar eiga að starfa út frá. Á fyrsta aðalfundi Samtaka Heilsuleikskóla árið 2006 var samþykkt að endurskoða viðmið fyrir leikskóla og á aðalfundi árið 2007 í Grindavík voru samþykkt ný viðmið og hafa þeir leikskólar sem hyggjast vinna eftir heilsustefnunni tekið mið að þeim í sinni undirbúningsvinnu. Endurbætt viðmið líta dagsins ljós á 5 ára afmæli Samtaka Heilsuleikskóla 4. nóvember 2010.

Leikskóli á heilsubraut

Frá því að leikskóli hefur sótt um að verða heilsuleikskóli og þar til hann hefur fengið vígslu fær hann vinnuheitið Leikskóli á heilsubraut. Skólinn getur fengið aukaaðild að Samtökum Heilsuleikskóla þegar hann hefur fengið vinnuheitið Leikskóli á heilsubraut og þar til hann fær vígslu sem heilsuleikskóli. Þetta tímabil getur þó í hæsta lagi varað í þrjú ár. Leikskólinn fær fulla aðild að Samtökum Heilsuleikskóla þegar vígsla hefur farið fram. Leikskólinn þarf að vinna þannig að öllum markmiðunum heilsustefnunnar sé náð. Heildarsýn skólans þarf að miðast við heilsueflingu í hvívetna. Kennarar í heilsuleikskóla verða að gera sér grein fyrir mikilvægi uppeldishlutverksins og tileinka sér jákvætt viðhorf gagnvart heilbrigðum lífsstíl.

Heilsubók barnsins

Heilsubók barnsins er gæðamatskvarði Heilsuleikskóla og stuðlar að því að heilsuleikskólar nái settum markmiðum. Hún hefur að geyma útfærð skráningablöð varðandi þroska og ýmsar upplýsingar um barnið. Skráningin gerir kennurum kleift að fylgjast með þroskaframvindu barnsins og er einnig tæki til að upplýsa foreldra um stöðu þess í leikskólanum. Skráð er m.a. heilsufar, hæð og þyngd,næring og sjálfhjálp,lífsleikni, hreyfing og listsköpun. Skráningin skal fara fram tvisvar á ári, haust og vor og foreldrum boðið í viðtal í kjölfarið.

Áhersluþættir

Áhersluþættir heilsuleikskóla geta verið mismunandi eftir leikskólum en góð og holl næring, mikil hreyfing og listsköpun skulu ávallt vera aðalsmerki þeirra.

Næring

Stuðla skal að góðum matarvenjum og hollustu með áherslu á ferskleika og fjölbreytni. Leggja skal áherslu á að auka grænmetis- og ávaxtaneyslu barnanna og nota sykur og salt í hófi. Vatn skal vera aðgengilegt fyrir börn og starfsmenn. Við samsetningu matseðla skal tekið mið af markmiðum Lýðheilsustöðvar varðandi næringu barna og fá næringarráðgjafa til að fara yfir matseðla og næringarinnihald.

Hreyfing

Umhverfið þarf að bjóða upp á möguleika bæði til gróf- og fínhreyfinga til að styrkja barnið líkamlega, andlega og félagslega úti og inni. Lögð skal áhersla á skipulagðar hreyfistundir að lágmarki 1 sinni í viku, sem stuðlar að líkamlegri og andlegri vellíðan ásamt gleði. Markmiðið er að efla alhliða þroska barnsins og líkamsvitund, sem leiðir af sér aukna félagsfærni og leikgleði sem eflir vináttubönd.

Listsköpun

Mikilvægt er að vinna með og/eða tengja saman fjölbreytt tjáningarform listsköpunar s.s. myndlist, tónlist og leiklist. Lögð skal áhersla á markvissa listsköpun, þar sem unnið er með einn eða fleiri þætti listsköpunar. Markmiðið er að viðhalda forvitni, sköpunargleði, efla sjálfstraust og ímyndunarafl barnanna. Sjálft sköpunarferlið skiptir meira máli en útkoman. Lögð skal áhersla á að börnin fái tækifæri til að prófa sig áfram með fjölbreyttan efnivið, geri tilraunir og þjálfi upp færni sem leiðir af sér að þau verði viss um eigin getu.

4. kafli Námssvið leikskólans

Samþætt og skapandi leikskólastarf

Börn læra í leik og daglegu starfi í leikskólanum, innan dyra sem utan. Þau læra í samvinnu við önnur börn og þegar þau fá stuðning og hvatningu frá hinum fullorðnu. Námssvið leikskólans eiga að vera samþætt og samofin öllu starfi leikskóla og taka mið af sex grunnþáttum menntunar. Þau byggja á skapandi og gagnrýnni hugsun og tengjast leik og daglegum athöfnum í leikskólum (Aðalnámskrá leikskóla 28,2011).

Námssvið leikskólans eru: Læsi og samskipti, heilbrigði og vellíðan, sjálfbærni og vísindi, sköpun og menning (Aðalnámskrá leikskóla 28, 2011).

Læsi og samskipti

Börn eru félagsverur sem hafa ríka þörf fyrir samskipti við aðra. Þau hafa m.a. þörf fyrir að spyrja spurninga, skiptast á skoðunum og ræða hugmyndir sínar, tilfinningar og líðan. Börn nota ýmsar leiðir til að tjá sig og eiga samskipti við aðra. Auk tungumálsins nota þau til dæmis ýmiss konar hljóð, snertingu, látbragð og leikræna tjáningu, tónlist, myndmál og dans. Í gefandi samskiptum og leik eykst félagsfærni og sjálfsmynd styrkist. Læsi í víðum skilningi þess orðs er mikilvægur þáttur samskipta. Læsi í leikskóla felur í sér þekkingu, leikni og hæfni barna til að lesa í umhverfi sitt og tjá upplifun sína, tilfinningar og skoðanir á fjölbreyttan hátt (Aðalnámskrá leikskóla 28-29, 2011).

Máltaka er líklega eitt flóknasta og viðamesta nám sem nokkur maður stundar á lífsleiðinni. Fyrstu æviár barnsins fer mikill tími og orka í að ná valdi á málinu. Barnið lærir að tala með því að prófa sig áfram og mikilvægt er að hafa fyrir þeim rétt mál. Í Heilsuleikskólanum Kærabæ leggjum við áherslu á að börnin þjálfi talmál sitt og auki orðaforða sinn og málskilning. Við leggjum áherslu á að þau kynnist bókum og lestri þeirra. Ágætt safn er til af bókum í leikskólanum sem börnin hafa alltaf aðgang að og mjög gott bókasafn er á Kirkjubæjarklaustri sem við notum. Bækur eru lesnar á hverjum degi og börnin hvött til að tjá sig um innihald sögunnar. Í hvíldartíma er hlustað á sögur og ævintýri eða rólega tónlist. Málörvun á sér einnig stað við daglegar athafnir s.s. við matarborðið og í fataklefanum. Börnin eru hvött til að nota talmálið ásamt því að tjá sig á leikrænan hátt og í gegnum myndlist. Í Art tímum fá elstu börnin þjálfun í félagsfærni s.s. að hlusta á aðra, að deila hlutum, að takast á við stríðni o.s.frv. Unnið er að því að auka hljóð- og málvitund barnanna. Á síðasta ári barnanna í leikskólanum er hún síðan metin með Hljóm-2 athugun. HLJÓM-2 er tæki til að athuga hljóðkerfisvitund hjá börnum áður en þau hefja grunnskólagöngu. Núverandi HLJÓM-2 er grundvallað á niðurstöðum úr langtímarannsókn á tengslum hljóðkerfis- og málmeðvitundar við lestrarfærni en höfundar unnu að þessari rannsókn á árunum 1996- 2002. Við hönnun HLJÓM -2 var byggt á erlendum rannsóknum um tengsl hljóðkerfisvitundar og lestrar.

Í HLJÓM-2 eru eftirtaldir sjö þættir;

1) rím

2) samstöfur

3) samsett orð

4) hljóðgreining

5) margræð orð

6) orðhlutaeyðing

7) hljóðtenging

Hljóm-2 próf er lagt fyrir öll fimm ára börnin á haustdögum og síðan er unnið með og reynt að styrkja þau atriði sem þarf að þjálfa hjá barninu til vors en þá eru börnin aftur prófuð. Skriflegar upplýsingar um færni barnsins eru síðan færðar uppí grunnskóla, með samþykki foreldra.

Heilbrigði og vellíðan

Í leikskóla eiga börn að læra um og tileinka sér heilbrigða lífshætti, hollt mataræði, hvíld, hreinlæti og hreyfingu. Hreyfing er börnum eðlislæg og stuðlar að vellíðan. Hreyfing getur haft í för með sér gleði og ánægju og í gegnum hana læra börn. Börn eiga að fá tækifæri til að hreyfa sig frjálst jafnframt því að taka þátt í skipulagðri hreyfingu. Hreyfing og vellíðan hafa jákvæð áhrif á samskipti barna, umgengni þeirra við umhverfi sitt og hæfni þeirra til að takast á við daglegt líf og nýjar aðstæður. Í forvarnarstarfi leikskóla felst m.a. fræðsla, mat og verkefni fyrir börn, starfsfólk skóla og foreldra þar sem markmiðið er að skólaganga barnanna gangi sem best og að skólabragurinn verði sem jákvæðastur(Aðalnámskrá leikskóla 29,2011).

Líðan barns hefur áhrif á sjálfsmynd þess, t.a.m. hvort það hefur trú á eigin hæfni, er áhugasamt og sýnir vilja og getu til að takast á við mismunandi viðfangsefni. Daglegar athafnir í leikskóla eiga að stuðla að líkamlegri og andlegri vellíðan barna og góðri heilsu. Umhyggja á að skipa stóran sess í starfi leikskóla og mikilvægt er að starfsfólk leikskóla myndi góð og náin tengsl við börnin (Aðalnámskrá leikskóla 29,2011).

Í Heilsuleikskólanum Kærabæ er lögð áhersla á hreyfingu, næringu og sköpun líkt og í öðrum heilsuleikskólum. Góð aðstaða er til fín- og grófhreyfinga í leikskólanum. Útileiksvæðið gefur mikla möguleika til frjálsra hreyfileikja og innanhúss er ágæt aðstaða til ýmiskonar fínhreyfinga og grófhreyfinga. Leikskólinn hefur fastan tíma í íþróttahúsi staðarins einu sinni í viku og þangað fara öll börn frá tveggja ára aldir. Hádegismat fær leikskólinn úr mötuneyti Kirkjubæjarskóla á Síðu en þar er lögð áhersla á heimilislegan og fjölbreyttan mat. Salti, sykri og fitu er stillt í hóf. Við matarborðið er lögð áhersla á að ræða um hollustu matarins, hvað sé hollt og hvað ekki. Ávextir og grænmeti er í boði alla daga, í ávaxtatíma kl.10:00 í miðdegishressingu kl. 15:00 og undir lok dags eftir kl. 16:30. Á afmælisdögum barnanna er boðið uppá ávaxta- og grænmetisbakka. Daglega eiga börnin í samskiptum þar sem reynir á félagsleg tengsl þeirra og færni til að takast á við erfiðar aðstæður. Þau eru hvött til þess að ræða tilfinningar sínar og til að eiga í jákvæðum samskiptum hvort við annað.

Sjálfbærni og vísindi

Frá fyrstu stundu beita börn ýmsum aðferðum við að kanna og reyna að skilja umhverfi sitt. Þau horfa, hlusta, snerta, bragða, handleika, flokka, bera saman, rannsaka og draga ályktanir. Ung börn læra í gagnvirkum samskiptum við umhverfi sitt. Byggja þarf á reynslu barna af umhverfinu og skapa aðstæður fyrir nýja merkingarbæra reynslu. Leggja skal áherslu á samhengi þeirra viðfangsefna sem unnið er með svo sem náttúru og samfélag, mismunandi náttúrufyrirbæri, vísindi og tækni. Hlutverk leikskóla er að styðja við fróðleiksþorsta barna með því að fylgjast með og hlusta eftir því hvað börnin eru að fást við og reyna að átta sig á hvernig þau hugsa og skilja hlutina. Út frá því er þeim kynntur nýr efniviður og hugmyndir. Þau eru spurð spurninga sem m.a. er ætlað að vekja þau til umhugsunar um sjálfbærni og sjálfbæra þróun. Börn kanna og ræða samhengi fyrirbæra í umhverfi sínu. Ýta þarf undir forvitni, ígrundun og vangaveltur barna og hvetja þau til að spyrja spurninga og leita mismunandi lausna. Jafnframt ber að ýta undir vísindalega hugsun og aðstoða börn við að sjá tengsl, orsök og afleiðingu og styrkja skilning þeirra á hugmyndum og hugtökum. Mikilvægt er að kenna börnum að bera virðingu fyrir umhverfi sínu og náttúru og skapa þeim tækifæri til að upplifa og njóta (Aðalnámskrá leikskóla 29-30, 2011).

Börnin á heilsuleikskólanum Kærabæ eru mikið úti á þeirri góðu lóð sem tilheyrir leikskólanum. Þar komast þau í snertingu við náttúruna þ.e. sand, gras, steina, trjágróður, blóm, sveppi og landslag, hól, grasflatir o.s.frv. Matjurtagarður er á lóðinni en þar eru settar niður matjurtir að vori og teknar upp að hausti. Við leggjum áherslu á að ganga vel um náttúruna og umhverfi okkar um leið og við fylgjumst með árstíðabreytingum. Við flokkum allan endurnýtanlegan úrgang og nýtum á skapandi hátt. Við setjum matarafganga og brennanlegt rusl í sér flokka. Kæribær er skóli á grænni grein og þau verkefni sem unnin eru í þeim skólum fjalla m.a. um sjálfbæra þróun, vatn, orku, úrgang, lýðheilsu og loftslagsbreytingar. Í vísindasmiðju er lögð áhersla á stærðfræði, náttúrufræði, tölvufræði og eðlisfræði. Markmiðið að efla hugmyndaflug og sköpunargleði barnanna ásamt því að þau kynnist eðli ýmissa krafta og birtingamyndum þeirra í umhverfinu. Einnig að styrkja þau í þekkingarleit sinni.

Sköpun og menning

Sköpun er mikilvægur þáttur í námi og þroska barna. Skapandi starf á fyrst og fremst að beinast að ferlinu sjálfu, gleðinni, tjáningunni og náminu sem á sér stað þegar hugmyndir, tilfinningar og ímyndun fá að njóta sín. Umhverfi leikskóla á að örva skynjun og styðja við sköpunarkraft barna. Menning er samofin öllu starfi leikskóla og tengist leik barna, lýðræði, skapandi starfi og þjóðmenningu. Gera skal barninu kleift að nálgast viðfangsefni frá mörgum hliðum og á eigin forsendum. Hlutverk leikskólakennara felst m.a. í því að velja leiðir sem hvetja til skapandi hugsunar og sjálfstæðra vinnubragða hjá börnunum (Aðalnámskrá leikskóla 30, 2011).

Myndsköpun er daglegur þáttur í leikskólanum. Barnið hefur aðgang að ýmiss konar efnivið s.s. litum, pappír og leir og kynnist eðli þeirra og eigindum. Í sköpunarstarfinu þroskar barnið með sér einbeitingu og æfist stig af stigi við að leysa æ flóknari verkefni. Börnin tjá sig í margskonar verkefnum og gera uppgötvanir á eigin forsendum. Á hverjum vetri er eitt fyrirtæki innan sveitarfélagsins valið og börnin fá tækifæri til að kynnast starfsemi þess. Á degi leikskólans 6. febrúar er síðan sett upp myndlistarsýning þar og foreldrum og öðrum velunnurum leikskólans boðið að koma. Í tónlistaruppeldi þroskar barn með sér næmi fyrir hljóðum, hreyfingu og hrynjanda, frumkvæði, frjálsri skapandi tjáningu og túlkun. Börnin læra að njóta þess að hlusta á tónlist, kynnast hljóðfærum og hljóðgjöfum. Leitast er við að flétta tónlist inn í sjálfsprottinn leik barnanna og flétta þar saman hljóð, hrynjanda og hreyfingu. Gott samstarf er við tónlistarskólann og kennari hans kemur til okkar einu sinni í viku og er með öfluga tónlistarstund með börnunum. Á hverju ári taka leikskólabörnin þátt í árshátíð Kirkjubæjarskóla á Síðu og stíga þá gjarnan á stokk og syngja. Á hverju vori er haldin útskriftar- og vorhátíð leikskólans þar sem börnin taka virkan þátt í að skapa hátíðarstemningu.

5. kafli.Samstarf

Samstarf við foreldra fer fram með óformlegum hætti í daglegum samskiptum. Allt það starf sem unnið er, það uppeldi og sú menntun sem barnið fær á leikskólanum er viðbót við það sem það fær hjá foreldrum sínum. Því er mikilvægt að daglegt upplýsingaflæði fari fram á milli heimilis og skóla. Daglega eru skráðar upplýsingar upp á vegg fyrir foreldra þar sem fram kemur hvað barnið fékk að borða, hvort það svaf og hve lengi ásamt því við hvað hópur barnsins hefur fengist þann daginn. Þá er haldinn einn foreldrafundur í byrjun vetrar. Öllum foreldrum er boðið uppá að koma í tvö viðtöl á vetri til leikskólakennara þar sem farið er yfir málefni barnsins og skipst á upplýsingum um hagi þess og þroska. Í þeim viðtölum er stuðst við Heilsubók barnsins. Þá er Kæribær með heimasíðu þar sem fréttir og tilkynningar ásamt margvíslegum fróðleik er komið inn að jafnaði einu sinni í viku.

Aðlögun og samstarf við foreldra.

Góð samvinna og gagnkvæmur trúnaður foreldra og starfsfólks leikskóla er forsenda þess að leikskóladvölin verði barninu árangursrík og ánægjuleg. Mikilvægur þáttur í þessari samvinnu er aðlögun, þar sem lagður er hornsteinn að góðu samstarfi foreldra og starfsfólks leikskóla. Þegar barn byrjar í leikskóla er nauðsynlegt að hafa í huga þær breytingar sem það hefur í för með sér fyrir barnið. Barnið þarf að aðlagast nýju umhverfi, kynnast starfsfólki og börnum, læra að vera í hóp, hlýða reglum ofl. Það er einstaklingsbundið, hve langan tíma aðlögun tekur en gengið er út frá að hún taki ekki styttri tíma en 5 daga. Leikskólakennari og foreldrar ræða saman um tilhögun aðlögunarinnar og mikilvægi þess að annað foreldri dvelji með barninu í upphafi og hér er lagður grunnur að mikilli samvinnu þar sem virt er sérþekking foreldra á börnum sínum og sérþekking starfsfólks á starfi leikskólans. Á þessu tímabili kynnast barn og foreldrar starfsfólki leikskólans og starfsemi hans. Aðlögun kann að þurfa að endurtaka, hafi barnið verið fjarverandi um lengri tíma og getur gert gæfumuninn fyrir barnið.

Samstarf við grunnskóla

Í leikskóla fer námið fram í gegnum leikinn, og mikil áhersla er lögð á að bernskan er sérstætt þroskaskeið, og er leikskólastarf öðruvísi heldur en hið fagmiðaða kennslustarf sem fer fram í grunnskólanum. En mikilvægt er að móta heildarsýn og eðlilegt samhengi milli uppeldis og menntunar í leikskóla annars vegar og í grunnskóla hins vegar. Samfella milli leik og grunnskóla hefur áhrif á líðan og alhliða þroska barnanna. Hún gerir börnunum auðveldara að flytjast frá einu skólastigi til annars og styrkir öryggiskennd þeirra í byrjun grunnskóla náms.

Elstu börn leikskólans fara;

- í íþróttahúsið a.m.k. einu sinni í viku frá upphafi vetrar,

- í einn leikfimitíma á viku frá upphafi íþróttakennslu með yngstu börnum grunnskólans,

- á bókasafnið reglulega allan veturinn,

- í tölvustofu skólans í tengslum við bókasafnsferðir,

- á útileiksvæði grunnskólans í bókasafnsferðum,

- í kennslustund með yngstu nemendum grunnskólans undir vorið,

- í mat í matsal skólans undir vorið.

Öll börn sveitafélagsins fara í vorskóla sem er skipulagður af grunnskólanum. Allar þessar heimsóknir eru skipulagðar í samráði við kennara yngsta stigs-, íþróttakennara og skólastjóra Kirkjubæjarskóla. Þær skriflegu upplýsingar sem fylgja barninu úr leikskóla uppí grunnskóla eru niðurstöður úr Hljóm-2 prófinu sem lagt er fyrir síðasta veturinn í leikskóla. Einnig niðurstöður Íslenska þroskalistans og annarra skimanna séu þær fyrir hendi. Allar upplýsingar fara frá leikskóla til grunnskóla með vitneskju foreldra.

6. kafli. Mat á leikskólastarfi

Í reglugerð um starfsemi leikskóla segir að sérhver leikskóli skuli móta aðferðir til að meta uppeldisstarf, stjórnunarhætti og samskipti bæði innan leikskólans og utan. Mat skal gert með hliðsjón af lögum, reglugerð og aðalnámskrá leikskóla. Sérstaklega skal gera grein fyrir framkvæmd og niðurstöðum matsins (Aðalnámskrá leikskóla 39,1999).

Á Kærabæ er daglega skráð niður það sem fram fer í hópastarfi bæði fyrir og eftir hádegi. Daglega er skráð hversu vel börnin borða og hversu lengi þau sofa, ef þau sofna.

Þannig er m.a. fylgst með þroska og námi hvers barns, það skráð í Heilsubók barnsins og niðurstöður kynntar foreldrum í viðtölum tvisvar á ári. Með þessu móti er hægt að leggja mat á leikskólastarfið og starfsfólk fær sýn á það hvort verið sé að sinna þeim námsviðum sem því ber samkvæmt lögum og hvort börnin nái markmiðum heilsustefnunnar. Starfið er einnig metið á nokkurra ára fresti með Ecers kvarðanum en það er tæki/kvarði til að meta leikskólastarf fyrir þriggja til sex ára börn sem hefur það að markmiði að bæta leikskólastarfið. Þá er lögð fyrir viðhorfskönnun meðal foreldra með nokkurra ára millibili sem einnig er liður í innra mati á starfsemi leikskólans. Þar eru m.a. samskipti og stjórnunarhættir metnir

Barnið lærir af reynslu ekki kennslu.


Heimildaskrá

Aðalnámskrá leikskóla 2011. Mennta- og menningarmálaráðuneytið, Reykjavík.

Starfsfólk Kærabæjar 2008-2012.

© 2016 - 2018 Karellen